Bjarndýr í Fljótavík e. Jósef Hermann Vernharðsson

Endurbætur á Brekku 2004 022Jósef Hermann Vernharðsson við sumarbústað sinn á Brekku í Fljótavík

 

Eftirfarandi frásögn skráði faðir minn, Jósef Hermann Vernharðsson af komu bjarndýrs í Fljótavík vorið 1974.

Það var árið 1974, 18 maí sem nokkrir aðilar, Jón Gunnarsson, Ingólfur Eggertsson og Helgi Geirmundsson fóru á bátnum Sigurði Þorkelssyni til Fljótavíkur,  með vél til að setja í jeppa sem stóð við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins og var notaður til að flytja farangur sem fólk hafði með sér, fram að sumarbústaðnum sem byggður var á Atlastöðum nokkrum árum fyrr. Með þeim í för var kona Ingólfs, Herborg, sonur þeirra Hörður (f. 6.júlí 1958,15 ára), sonur Helga, Helgi (f. 22.febrúar 1963, 11 ára) og sonur Jóns, Magnús (f. 6.des. 1963, 10 ára).
 
Eftir landtöku héldu þau rakleiðis fram að Atlastöðum til að taka upp   nesti og hita kaffi fyrir hópinn. Þeir drösluðu vélinni í land og upp í jeppann,  en þegar þeir voru langt komnir að tengja vélina, lítur  Jón upp úr vélarhúsinu og segir við félaga sína, “nei sjáiði nú þennan”, þegar þeir líta upp, sjá þeir hvar fullvaxinn ísbjörn stendur skammt frá þeim. Og nú voru góð ráð dýr! Það var þeim til bjargar að björninn var jafn hissa og þeir og þannig gafst þeim tóm til að skjótast inn í skýlið og grípa með sér byssu sem þeir höfðu haft með sér, en skotin voru í úlpu sem var neðar á kambinum.
Björninn var hinn rólegasti og kannaði svæðið, hnusaði af útvarpi sem var þar í gangi, át appelsínur sem voru í poka á kambinum og ráfaði síðan dálítið um.
 
Þegar þessi staða var komin upp var úr vöndu að ráða. Von var á drengjunum til baka að kalla á þá í mat og hvað myndi þá verða um þá ef þeir hefðu mætt birninum. Ekki er hægt að lýsa í orðum þeirri sálarangist sem greip mennina í skýlinu meðan þessi atburðarrás átti sér stað, ef dýrið rásaði frá í áttina að bústaðnum. Ræddu þeir saman um hvað skyldi taka til bragðs. Ekki mátti tala, ganga um eða horfa út um gluggann, því þá gæti bangsi orðið þeirra var.
 
Talstöð var í skýlinu og kallaði Jón á loftskeytastöðina á Ísafirði og bað um aðstoð. Þess má geta að þegar Jón var búinn að hafa samband við Ísafjörð,
kallaði loftskeytastöðin á Siglufirði í hann og sagði honum að hann mætti ekki nota talstöðina nema í neyðartilfellum.
 
Á Ísafirði var kallað eftir flugvél í eigu Harðar Guðmundssonar flugmanns, en  hún þurfti mjög stutta lendingarbraut.
 
Í millitíðinni hafði Helga tekist, eftir að bangsi ráfaði aðeins frá skýlinu, að ná í úlpuna með skotunum og koma skoti á hann, eftir það voru dagar
hans þar með taldir og var því öllu hættuástandi aflýst. En þrátt fyrir það kom flugvélin með frétta og sjónvarpsmenn og lenti rétt neðan við sumarbústaðinn.
 Þeir komu heim að húsinu og hittu þar fyrir Boggu og strákana og spurðu hana eftir ísbirninum sem hafði verið drepinn þar. Hana rak í rogastans, hún vissi  ekki til að svo væri  og spurði þá hvort þeir vær ekki með öllum mjalla. Skömmu síðar komu bjarndýrsbanarnir heim að bústaðnum og kom þá allur sannleikurinn  í ljós. Þegar björninn var krufinn kom í ljós að í maganum var ekkert nema appelsínurnar sem hann hafði étið.
 
Til fróðleiks má geta þess, að þegar Helgi var kominn niður á bryggju snemma um morguninn, fær hann þá hugmynd að gott væri að hafa skotfæri með, en byssan var um borð í bátnum. Hann snýr því til baka heim til sín og sækir skotin og setur þau í úlpuvasann en, að öllu jöfnu var byssa ekki höfð með í slíkar ferðir. (Einnig var sú saga sögð um Ingólf, að þegar hann hafði augnsamband við bjössa, leysti hann vind svo hressilega að bjössi fékk hálfgert aðsvif og þess vegna fengu þeir svigrúm til að komast í skýlið.  


mbl.is „Harma ísbjarnardrápið"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir

Sæl og blessuð.

Mikið var gaman að sjá blogg frá þér.

Fróðleg og skemmtileg frásaga en samt óhugnanlegt að vita af konunni og strákunum úti.

Við vitum aldrei hvað ísbjörninn hefði gert hefði hann komist í tæri við drengina. Guði sé lof að þarna fór allt vel.

Bið að heilsa frænda og fjölskyldunni.

Guð blessi ykkur

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 4.6.2008 kl. 20:27

2 Smámynd: Laufey B Waage

Ég var viðstödd þegar "Fljótavíkur-bjössi" var ristur á kvið - og maginn í honum var svo galtómur, að hann hefði ekki hikað við að gúffa strákunum í sig, ef hann hefði ekki verið skotinn rétt áður en þeir komu að skýlinu.

Laufey B Waage, 4.6.2008 kl. 23:01

3 identicon

Skemmtileg frásögn!

Bestu kveðjur til ættfólksins, við sjáumst vonandi í Fannahlíð 5. júlí.

Kveðja, nafna

Sigga Magg (IP-tala skráð) 5.6.2008 kl. 10:12

4 Smámynd: Þorgeir Arason

Stóráhugavert að lesa þetta! Hjartans þakkir fyrir að koma þessu á framfæri. Bestu kveðjur, Þorgeir.

Þorgeir Arason, 6.6.2008 kl. 18:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband