Færsluflokkur: Menntun og skóli
Ég á svolítið erfitt með að skilja hvert þær stöllur Sigrún Elsa Smáradóttir og Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir hafa verið að fara í fjölmiðlum undanfarna daga. "Mömmugilda" er titill á pistli Bryndísar í Fréttablaðinu föstudaginn 7. mars. Hún finnur heimgreiðslum til foreldra allt til foráttu. Það er verið að binda konur heima "á bak við eldavélina" eins og einn fyrrverandi ráðherra komst að orði fyrir nokkrum árum síðan. Er álitið á sjálfsmati kvenna ekki meira? Var barátta rauðsokknanna til einskis? Var kvennalistinn flopp? Borgarstjórinn er málaður upp sem karlrembusvín, sem telur að staða konunnar sé inni á heimilinu. Við sama tón kveður í grein Sigrúnar Elsu í Morgunblaðinu þennan sama dag, "konurnar heim og ekkert vesen". Sú hugmynd að greiðslujafna þjónustuna, burtséð frá því hver veitir hana er að mörgu leyti góðra gjalda verð. En hún leysir ekki vandann ein og sér. Ég veit, að konur eru sem betur fer fæstar með svo lítið sjálfsmat, að þær geti ekki með glans, verið á vinnumarkaðnum, eignast öll þau börn sem þær langar til, og nú, þökk sé borgarstjóra, verið heima með þau (eða útvegað sér úrræði á eigin spýtur) eins lengi og þær langar til. Og hver segir að þetta geti ekki eins verið faðirinn? Hefur þetta kannski eitthvað með launajafnrétti að gera? Það sem málið snýst um, er að að er verið að gera fólki kleift að finna önnur úrræði. Greiðsla upp á 50.000 á mánuði gæti kannski gert það kleift fyrir einn eða fleiri að fá sér a-pair, eða ömmu/frænku sem hætt er að vinna.
Staðreyndin er sú, að þó orðin séu falleg um að það þurfi fleiri leikskólapláss, fjölga úrræðunum, þá er veruleikinn ekki eins fallegur. Það er ekki nóg að fjölga leikskólaplássum og dagmæðrum, það þarf að manna það sem fyrir er. Og á meðan þeir leikskólar sem fyrir eru, eru ekki fullmannaðir og senda þarf börn heim í hverri einustu viku, þá er enginn tilgangur með því að hraða uppbyggingu nýrra. Leikskóli er ekki bara hús/steinsteypa, leikskóli er að stærstum hluta fólk, og þegar það fæst ekki, þá er byggingin tilgangslaus og biðlistarnir lengjast eftir sem áður.