11.7.2006 | 12:45
Að loknu ættarmóti
Þá er ættarmótum sumarsins lokið, að undanskildu hinu árlega Rauðhyltingamóti á Fellsenda helgina fyrir verslunarmannahelgi.
Nú hættir maður alfarið að taka mark á veðurspá mbl.is. Rennblautur laugardagurinn var fremur erfiður, en sunnudagur var þó alltaf bjartur og fagur. Höfum frú Hildi á Hrafnabjörgum grunaða um að hafa lagt hönd á plóginn og samið við almættið.
Alveg var hann Sibbi frændi brilljant á laugardagskvöldið að hafa ofan af fyrir ungum og öldnum í leikjum. Hann á hrós skilið og gullmedalíu fyrir tiltækið. Ekki veitti af að hressa mannskapinn við eftir niðurrignda bjarmalandsför að Efstadal, fæðingarstað afa Samúels. Ekki skemmdi þó fyrir kaffihlaðborð frú Önnu á Eiríksstöðum sem klikkaði ekki frekar en fyrri daginn. Þökk sé henni og hennar fólki enn og aftur fyrir móttökurnar.
Mamma er að hressast sem betur fer. Vonandi varð henni ekki meint af innrás litlu fjölskyldunnar úr Marteinslaug. Fórum í sund á Suðureyri í gær. Krakkarnir skemmtu sér hið besta, enda laugin ein besta barnalaug á landinu og þó víðar væri leitað. Annars erum við bara að vísitera vini og ættingja í rólegheitunum, en förum héðan á morgun.
Meira síðar.
Myndir á www.sjos.blogspot.com
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.