13.3.2008 | 18:44
Hvað með Vestfirði?
Hvað eiga Vestfirðingar að bíða lengi eftir almennilegum samgöngum? Nú á að tvöfalda Suðurlandsveg, og bora göng undir Vaðlaheiði. Ekki er mjög langt síðan gerðar voru lagfæringar á Suðurlandsvegi þar sem gerður var mjög góður 2+1 vegur. Vegurinn um Víkurskarð er upphækkaður og malbikaður. Nú má ekki skilja sem svo að ég sé á móti þessum framkvæmdum, en íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum mega búa við malarvegi sem ekkert hefur verið gert fyrir síðan þeir voru lagðir fyrir 50 árum eða meira. Plástrar hér og þar, malbikaður kafli á Barðaströndinni fyrir 12 árum þegar Ólafur Ragnar kom í fyrstu opinberu heimsókn sína þangað, og síðan ekki söguna meir. Samgöngur milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða eru landi og þjóð til háborinnar skammar. Þar er yfir tvo varhugaverða fjallvegi að fara, sem eru lokaðir vegna snjóa stóran hluta ársins. Þegar markmiðið ætti að vera að bora göng sem víðast, þá er bætt á Vestfirðinga einum fjallveginum enn, um Arnkötludal yfir Tröllatunguheiði. Hefði ekki verið betri kostur að bora göng undir Kollafjarðarheiði, og losna alfarið við fjallvegi á leiðinni milli Ísafjarðar og Reykjavíkur (að vísu frátaldri Bröttubrekku)? Nú er mér allavega nóg boðið, og skora hér með á hæstvirtan samgönguráðherra að gera nú eitthvað róttækt í vegamálum Vestfirðinga, það væri vafalaust góð mótvægisaðgerð að fara í vegabætur á Vestfjörðum núna, ég hef þá trú að annað muni fylgja í kjölfarið.
Tvöföldun hefst 2009 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Bloggar, Ferðalög | Facebook
Athugasemdir
Sæl Sigríður.
Vestfirðir eru einstakir ekki síst fyrir lélegar samgöngur, þær eru í stuttu máli þjóðarskömm. En tenging innan Vestfjarða eru sínu verri en til Vestfjarða, því þeim vegi er haldið lokuðum að meðaltali 120 daga á ári. Hinar leiðirnar eru þó mokaðar reglulega. Ég skora á þig og aðra að kíkja á hugmyndir mínar um vegtengingar á Vestfjörðum sem finna má á blogginu mínu. Þar eru nokkur kort sem sína vegalengdir, með sláandi mismun.
Sigurður Jón Hreinsson, 13.3.2008 kl. 19:27
Kæra frænka og tengdafrænka. Baráttukveðjur fyrir Vestfjörðum.
Rósa Aðalsteinsdóttir, 13.3.2008 kl. 21:47
Við erum vön því að þurfa að sitja á varamannabekknum, þess vegna viljum við setja á stofn fríríkið Vestfirði.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 14.3.2008 kl. 17:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.