Færsluflokkur: Bloggar

Bjarndýr í Fljótavík e. Jósef Hermann Vernharðsson

Endurbætur á Brekku 2004 022Jósef Hermann Vernharðsson við sumarbústað sinn á Brekku í Fljótavík

 

Eftirfarandi frásögn skráði faðir minn, Jósef Hermann Vernharðsson af komu bjarndýrs í Fljótavík vorið 1974.

Það var árið 1974, 18 maí sem nokkrir aðilar, Jón Gunnarsson, Ingólfur Eggertsson og Helgi Geirmundsson fóru á bátnum Sigurði Þorkelssyni til Fljótavíkur,  með vél til að setja í jeppa sem stóð við neyðarskýli Slysavarnarfélagsins og var notaður til að flytja farangur sem fólk hafði með sér, fram að sumarbústaðnum sem byggður var á Atlastöðum nokkrum árum fyrr. Með þeim í för var kona Ingólfs, Herborg, sonur þeirra Hörður (f. 6.júlí 1958,15 ára), sonur Helga, Helgi (f. 22.febrúar 1963, 11 ára) og sonur Jóns, Magnús (f. 6.des. 1963, 10 ára).
 
Eftir landtöku héldu þau rakleiðis fram að Atlastöðum til að taka upp   nesti og hita kaffi fyrir hópinn. Þeir drösluðu vélinni í land og upp í jeppann,  en þegar þeir voru langt komnir að tengja vélina, lítur  Jón upp úr vélarhúsinu og segir við félaga sína, “nei sjáiði nú þennan”, þegar þeir líta upp, sjá þeir hvar fullvaxinn ísbjörn stendur skammt frá þeim. Og nú voru góð ráð dýr! Það var þeim til bjargar að björninn var jafn hissa og þeir og þannig gafst þeim tóm til að skjótast inn í skýlið og grípa með sér byssu sem þeir höfðu haft með sér, en skotin voru í úlpu sem var neðar á kambinum.
Björninn var hinn rólegasti og kannaði svæðið, hnusaði af útvarpi sem var þar í gangi, át appelsínur sem voru í poka á kambinum og ráfaði síðan dálítið um.
 
Þegar þessi staða var komin upp var úr vöndu að ráða. Von var á drengjunum til baka að kalla á þá í mat og hvað myndi þá verða um þá ef þeir hefðu mætt birninum. Ekki er hægt að lýsa í orðum þeirri sálarangist sem greip mennina í skýlinu meðan þessi atburðarrás átti sér stað, ef dýrið rásaði frá í áttina að bústaðnum. Ræddu þeir saman um hvað skyldi taka til bragðs. Ekki mátti tala, ganga um eða horfa út um gluggann, því þá gæti bangsi orðið þeirra var.
 
Talstöð var í skýlinu og kallaði Jón á loftskeytastöðina á Ísafirði og bað um aðstoð. Þess má geta að þegar Jón var búinn að hafa samband við Ísafjörð,
kallaði loftskeytastöðin á Siglufirði í hann og sagði honum að hann mætti ekki nota talstöðina nema í neyðartilfellum.
 
Á Ísafirði var kallað eftir flugvél í eigu Harðar Guðmundssonar flugmanns, en  hún þurfti mjög stutta lendingarbraut.
 
Í millitíðinni hafði Helga tekist, eftir að bangsi ráfaði aðeins frá skýlinu, að ná í úlpuna með skotunum og koma skoti á hann, eftir það voru dagar
hans þar með taldir og var því öllu hættuástandi aflýst. En þrátt fyrir það kom flugvélin með frétta og sjónvarpsmenn og lenti rétt neðan við sumarbústaðinn.
 Þeir komu heim að húsinu og hittu þar fyrir Boggu og strákana og spurðu hana eftir ísbirninum sem hafði verið drepinn þar. Hana rak í rogastans, hún vissi  ekki til að svo væri  og spurði þá hvort þeir vær ekki með öllum mjalla. Skömmu síðar komu bjarndýrsbanarnir heim að bústaðnum og kom þá allur sannleikurinn  í ljós. Þegar björninn var krufinn kom í ljós að í maganum var ekkert nema appelsínurnar sem hann hafði étið.
 
Til fróðleiks má geta þess, að þegar Helgi var kominn niður á bryggju snemma um morguninn, fær hann þá hugmynd að gott væri að hafa skotfæri með, en byssan var um borð í bátnum. Hann snýr því til baka heim til sín og sækir skotin og setur þau í úlpuvasann en, að öllu jöfnu var byssa ekki höfð með í slíkar ferðir. (Einnig var sú saga sögð um Ingólf, að þegar hann hafði augnsamband við bjössa, leysti hann vind svo hressilega að bjössi fékk hálfgert aðsvif og þess vegna fengu þeir svigrúm til að komast í skýlið.  


mbl.is „Harma ísbjarnardrápið"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með Vestfirði?

Hvað eiga Vestfirðingar að bíða lengi eftir almennilegum samgöngum?  Nú á að tvöfalda Suðurlandsveg, og bora göng undir Vaðlaheiði.  Ekki er mjög langt síðan gerðar voru lagfæringar á Suðurlandsvegi þar sem gerður var mjög góður 2+1 vegur.  Vegurinn um Víkurskarð er upphækkaður og malbikaður.  Nú má ekki skilja sem svo að ég sé á móti þessum framkvæmdum, en íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum mega búa við malarvegi sem ekkert hefur verið gert fyrir síðan þeir voru lagðir fyrir 50 árum eða meira.  Plástrar hér og þar, malbikaður kafli á Barðaströndinni fyrir 12 árum þegar Ólafur Ragnar kom í fyrstu opinberu heimsókn sína þangað, og síðan ekki söguna meir.  Samgöngur milli norðan- og sunnanverðra Vestfjarða eru landi og þjóð til háborinnar skammar.  Þar er yfir tvo varhugaverða fjallvegi að fara, sem eru lokaðir vegna snjóa stóran hluta ársins.  Þegar markmiðið ætti að vera að bora göng sem víðast, þá er bætt á Vestfirðinga einum fjallveginum enn, um Arnkötludal yfir Tröllatunguheiði.  Hefði ekki verið betri kostur að bora göng undir Kollafjarðarheiði, og losna alfarið við fjallvegi á leiðinni milli Ísafjarðar og Reykjavíkur (að vísu frátaldri Bröttubrekku)?  Nú er mér allavega nóg boðið, og skora hér með á hæstvirtan samgönguráðherra að gera nú eitthvað róttækt í vegamálum Vestfirðinga, það væri vafalaust góð mótvægisaðgerð að fara í vegabætur á Vestfjörðum núna, ég hef þá trú að annað muni fylgja í kjölfarið.
mbl.is Tvöföldun hefst 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hugsa mér einstakling........

Reglurnar eru:

1.  Ég svara með já, nei eða kannski.

2.  Svarendur eru úr leik eftir fimm nei

Góða skemmtunSmile

 


Skúli

Við kynntumst Skúla í Kaliforníu í mars 2001.  Ljúfari ferfætling er ekki hægt að hugsa sér.  Það var eins og hann hefði alltaf verið í fjölskyldunni.  Ingibjörg og Bjarki fluttu svo heim í ágúst 2002, og ekki kom til greina að Skúli yrði skilinn eftir.  Hann flutti inn til okkar á Ægisíðuna, tímabundið eftir 6 vikna dvöl í Hrísey.  Aldrei þurfti að hafa áhyggjur af honum með börnunum, það var ótrúlegt hvað hann umbar þeim, og ef hann varð þreyttur á þeim, þá skreið hann undir borð til að hafa frið.  Aldrei heyrði maður svo mikið sem bofs frá honum þegar börnin voru annars vegar.  Stefán og Ingibjörg voru mjög hrifin af Skúla.  Svo mikið að þau kölluðu alla hunda Skúla.  Hann flutti í sveitina til "afa og ömmu" í haust, þegar "foreldrarnir" fluttu til Canterbury, og kunni bara vel við sig.  Var að verða algjör sveitahundur.  Og nú er hann allur.  Við munum sakna Skúla, og geyma allar góðu minningarnar sem hann skilur eftir sig.


Margrét Sverrisdóttir

 

Ég hef ekki verið virk í pólitík í gegnum tíðina, meira fylgst með mönnum en flokkum.   Á síðustu árum er ein ung kona sem mér finnst standa upp úr í flokki ungra stjórnmálamanna, Margrét Sverrisdóttir.  Hún er skelegg, samkvæm sjálfri sér og ber af sér góðan þokka.

 

Nú, hvert er þetta að fara?  Mér hefur blöskrað framkoma stjórnar- og þingmanna flokksins í hennar garð undanfarið og ákvað að fylkja liði með henni og hjálpa henni við að koma skikk á flokkinn sinn.  Já, flokkinn hennar, þó að vissulega eigi ekki að kalla stjórnmálaflokka eign einhvers, þá hafa fáir lagt meira til hans en Margrét, bæði í vinnuframlagi og stefnumótun.  Það þarf ekki nema að líta á skoðun andstæðinga í pólitíkinni, sbr. Ástu Möller á heimasíðu sinni:  ,,Margrét hefur verið límið í flokknum, rödd skynseminnar og andlit hans út á við." (Úlfakreppa í Frjálslyndaflokknum).  Í sama streng tekur Þórunn Sveinbjarnardóttir í grein sinni Frjálslyndi karlaflokkurinn (Blaðið 24.01. s. 13): ,,Margrét er afburðamanneskja sem ég hélt að Frjálslyndum þætti sómi að innan sinna raða".

 

Margrét mætti Magnúsi Þór Hafsteinssyni,  mótframbjóðanda sínum í varaformannsemættið, í Kastljósi í gærkvöldi. Heldur fannst mér málflutningur Magnúsar bágborinn, hans hugmyndir um pólitískar umræður eru að ráðast á Margréti með óljósum ásökunum um hitt og þetta. Núna finnst honum hann greinilega vera afskaplega snjall að lýsa því yfir að hún hafi ekki náð neinum árangri! Honum finnst hann mikill  kall með 300 atkvæði Frjálslynda flokksins á bakvið sig á Akranesi í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Og gerir lítið úr 6500 atkvæðum Frjálslyndra í Reykjavík. Hvernig getur varaformaður flokks gert lítið úr stórsigri hans í Reykjavík?

Svo hélt kappinn áfram, sæll yfir að hafa nú náð góðum árangri í sínu kjördæmi í síðustu alþingiskosningum, sem Margrét hafi ekki náð. Gallinn við þennan málflutning er sá, að Margrét fékk miklu fleiri atkvæði í síðustu kosningum en hann, þó svo hún kæmist ekki inn á þing. Misvægi atkvæða er nefnilega svo gegndarlaust, að menn eins og Magnús fjúka inn á þing á meðan fólk með miklu fleiri atkvæði á bak við sig er úti í kuldanum. Væri ekki nær fyrir Magnús að berjast gegn því óréttlæti, í stað þess að hreykja sér af því?  Annað óréttlæti sem ástæða er til að laga strax, er aðgengi þeirra aðila sem vilja ganga í flokkinn og starfa með honum.  Tilraun mín til þess að hringja á skrifstofu flokksins í dag endaði í talhólfi Magnúsar Þórs!  Átti ég að segja honum að ég vildi ganga í flokkinn til að styðja framgang Margrétar innan hans? Mér finnst svarið ,,Hún er úti í bæ" er ég spurðist fyrir um Margréti, ekki lýsa mikilli virðingu fyrir væntanlegum kjósendum, en hann má þó eiga það að hann lét mig hafa GSM símanúmerið hennar.  Og fyrir þá sem vilja ganga í flokkinn þá bendi ég á kosningaskrifstofu Margrétar að Hlíðarsmára 10 í Kópavogi, en þar er hægt að nálgast umsóknareyðublöð.  Vil ég hvetja alla stuðningsmenn Margrétar til að mæta þar og skrá sig, og mæta svo á landsþingið um helgina og styðja hana til allra góðra verka.

 

Barátta samherja er aldrei góð og alls ekki ef hún er ómálefnaleg og snýst um aðra hluti en hvað og hverjir eru bestir fyrir flokkinn.  Magnús Þór hefur ítrekað haldið því fram að hann og formaðurinn séu að veiða vel á atkvæðamiðunum, sem er mikið rétt en hvort rétt veiðafæri eru notuð er svo annað mál.


Jólakveðja úr Marteinslauginni

IMG_2459Fjölskyldan Marteinslaug 12 Grafarholti sendir vinum og ættingjum nær og fjær hugheilar nýárs- og jólakveðjur með von um að þið hafið það öll alveg frábært og samt sé allt  og allir á uppleið þ.e. að þið séuð að flytja í efra til okkar í Holtið, hér er frábært að vera.


Honky dory

Þjóðskjalavörður og dómsmálaráðherra

Jæja það er sælan, eitt stig úr tveimur síðustu leikjum!  Hefðu átt að vera fjögur, en svona er lífið í boltanum það þýðir ekkert að að væla Gráta enda hlutverk boltans að gefa lífinu aukið gildi ekki auka þjáningar. Ég verð samt að segja að spila 4-5-1 með Rooney einan á toppnum var fáranlegt, okkur vantar fleiri sóknarmenn t.d. Martin sem við lánuðum til Rangers, einhvern til að hlaupa línuna.

Njósnir til verndar öryggis sjálfstæðisflokksins eru ofarlega á baugi þessa dagana og gaman að heyra frá eina sagnfræðingnum sem hefur skoðað gögnin, að um leyniþjónustu sjálfstæðisflokksins, á kostnað ríkisins, hafi verið að ræða.  Það verður gaman að fylgjast með úrvindu þessa máls, tilraunir þær sem þjóðskjalavörður hefur haft uppi til að hindra aðgang að gögnunum eru vægast sagt aumkunarverðar, í  upplýstu upplýsingasamfélagi.  Það er nefnilega svo að á árunum sem möndulveldin tvö hafa verið í stjórn þá hefur verið unnið gott og markvisst starf í því að bæta stjórnsýsluna, reyndar arfleið Jóns Baldvins (EES), auka rétt borgaranna en menn stíga aftur til kaldastríðstímanns án þess að blikka hvað þá blikna. 

 

 


Skóli - bolti - líf - vinna

Þetta tekur á!!

Skólinn er byrjaður og ég er strax á eftir, í verkefnum, lestri og hugsun.  Enda ekki búinn að kaupa neinar  bækur, hvað þá lesa þær, er þetta nú hægt fyrir mann í mastersnámi?  Lokaverkurinn(verkefni) er það sem liggur fyrir og ég er varla byrjaður að hugsa, en það kemur, vonandi.

Boltinn rúllar og heldur manni við efnið, eina tengingin við raunveruleikann.  Fimm alvöruleikir, fimm sigrar, gott mál.  Stór leikur um helgina.

Nú er SuperNova liðið og maður neyðist líklega til að fara að sinna konunni þegar Magna nýtur ekki lengur við í þeim málum. Hún ætlar á morgun í Smáralindina til að sjá goðið með fullum stuðningi mínum (ManUtd og  Arse á sama tíma) og Magni er auðvitað nátengdur mér eða frændi Sigurðar Arnar frænda míns.

Ég byrjaði í nýrri vinnu um síðustu mánaðamót, færði mig úr skipum í flugvélar.  Það tekur á margt að læra og gera en mér líst bara vel á, tilbreyting hristir alltaf upp í manni.


9 stig 10-2

file5502369.jpg

Boltinn byrjar vel, við vinnum og helstu keppinautar tapa stigum. Það er samt ástæða til að hafa áhyggjur af hópnum, hann er ekki stór og meiðsli og bönn hafa áhrif.  Það lítur allt út fyrir að Hargreaves komi ekki og tíminn er að renna út til leikmannakaupa.  Nóg um það þó að boltinn sé mikilvægur, heimsins stærsta sápuópera. 

Þá er fleira í gangi en bolti, í dag velta menn sér upp úr því hvort að það hefði breytt einhverju með Kárahnjúkana hvort ein skýrsla hefði verið kynnt alþingismönnum og almenningi eður ei og jafnvel talað um að fresta að láta renna í Hálsalón! Jafnvel Steingrímur J., minn maður, var að predika að ganga frá þessu öllu saman og nota sem safn mistaka!  Hvað með álverið og uppbygginguna á Austfjörðum?? það er ekki hægt að halda uppi dreifðribyggð í landinu með hörrækt einni saman og háleitum hugsjónum.  Það sem þarf að hugsa um er ekki hvort stíflurnar haldi/leki eður ei, sérfræðingarnir Svalurer búnir að svara því og alþingismenn hafa almennt séð ekki þá tæknikunnáttu sem þarf til að svara því. Heldur afhverju þessi skýrsla kallaði á viðbrögð Landsvirkjunar yfirleitt, átti ekki að vera búið að spyrja þessara spurninga af okkar heimsmælikvarða sérfræðingum??? 

Ég hef meiri áhyggjur af áhrifum þessa eilífa gráts vinstrielítunnar úr 101 Reykjavík á ímynd og framgang félagshyggjunnar en  lekum stíflum og  að  setja   mela, fossa og einhver smá grös  undir vatn.   Það má ekki gleyma því að  við  Íslendingar  erum fyrst og fremst  praktískir tækifærissinnar ekki djúpir hugsuðir sem vilja lifa á rósrauðu skýi úr sambandi við raunveruleikann, við erum sem sagt FramsóknarmennTala af sér

Ómar 

p.s. Kjósum Magna. 


1sti í fótbolta og Latibær

Álfurinn og ég

Þá er komið að því, löng  og erfið bið á enda, boltinn byrjaður að rúlla. Það gerðist ekkert sem ekki var við að búast í gær Púlararnir náðu jafntefli á vafasamri vítaspyrnu og Arse í vandræðum með duglegt lið.   Það verður gaman að sjá hvernig gengur hjá okkar mönnum í dag Scholes og Rooney verða með áður en bannið tekur gildi, meira ruglið, og enn nokkuð um meiðsli.  Það verður spennandi að sjá hvernig gengur með að fá Hargreaves, mér líst vel á hann og það á að skvísa Bæjara hressilega með stórum upphæðum til að fá hann.

Við fórum í bæinn í gær með börnin og tókum þátt í Latabæjarhlaupi Glitnis, mikið fjör og mikið af fólki.  Börnin skemmtu sér feikivel og það fyrsta sem Stefán Mar sagði í morgun ,,eigum við ekki að fara út að hlaupa?" góð hugmynd en ég er enn aumur í öxlunum eftir gærdaginn.  Reyndar voru allir nema ég sofnaðir fyrir kl. níu


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband